01. febrúar 2019
Ávöxtun ársins 2018
self.header_image.title

Afkomutölur fyrir nýliðið ár benda til að raunávöxtun Birtu lífeyrissjóðs hafi verið um 1,5%. Eins og undanfarin ár var ágæt ávöxtun á skuldabréfaeign sjóðsins sem vegur um 60% af heildareignum. Ávöxtun hlutabréfa var lakari, hvort sem um ræddi innlend eða erlend hlutabréf. Framan af ári stefndi í ágæta ávöxtun erlendra hlutabréfa en á síðustu vikum ársins lækkuðu erlendir hlutabréfamarkaðir töluvert á sama tíma og gengi íslensku krónunnar styrktist. Þetta leiddi til þess að ávöxtun erlendra eigna mæld í krónum var lág.

Ávöxtun 2018

Ávöxtun séreignaleiða mótaðist af því sem að ofan er rakið. Skuldabréfaleiðin sem fjárfestir eins og nafnið gefur til kynna nánast eingöngu í skuldabréfum skilaði 3,8% raunávöxtun. Ávöxtunarkrafa lækkaði sem skilaði sér í hækkandi verði skuldabréfa í eigu sjóðsins (minnt er á að verð skuldabréfa með föstum vöxtum hækkar þegar ávöxtunarkrafa á markaði lækkar, og öfugt).

Raunávöxtun Innlánsleiðar var 2,1% en eignir leiðarinnar samanstanda nánast eingöngu af verðtryggðum bundnum innlánum.

Raunávöxtun Blönduðu leiðarinnar var neikvæð um 0.9%. Eignir deildarinnar skiptast til helminga á milli innlendra skuldabréfa og hlutabréfa, bæði innlendra og erlendra. Rysjótt gengi á hlutabréfamörkuðum leiddi til þess að ávöxtun leiðarinnar varð neikvæð en eins kemur fram að ofan skipuðust veður í lofti á erlendum hlutabréfamörkuðum undir loks síðastliðins árs.

Ávöxtun tilgreindar séreignar var neikvæð um 4,5%. Hlutabréf eru um 40% leiðarinnar og skiluðu neikvæðu framlagi til ávöxtunar. Aðrar eignir leiðarinnar eru skuldabréfaeign og óbundin óverðtryggð innlán. Eign leiðarinnar í innlánum leiddi til þess að skuldabréfaeignin var lægri en ella og því skilaði gott ár á skuldabréfamarkaði sér ekki af sama krafti og í leiðum þar sem vægi skuldabréfa var þyngra.

(Þó ber að athuga að um óendurskoðaðar tölur er að ræða og gætu þær tekið lítils háttar breytingum)

Ávöxtun 2018 tafla

Ávöxtunarleiðir Birtu lífeyrissjóðs eru þrjár talsins, með mismunandi samsetningu og eiginleikum.

  • Innlánsleið þar sem eignir eru nánast eingöngu innlán í bönkum og höfðar hún hvað mest til þeirra sem nálgast eftirlaunaaldur eða vilja sem minnstar sveiflur í ávöxtun séreignarsparnaðar.
  • Skuldabréfaleið sem hentar þeim sem vilja forðast miklar sveiflur á ávöxtun og eru komnir á síðari hluta æviskeiðs.
  • Blönduð leið skuldabréfa og hlutabréfa til helminga. Hún höfðar einkum til þeirra sem ávaxta fjármuni til lengri tíma og gera ráð fyrir að ávöxtun geti verið sveiflukennd á sparnaðartímabilinu.