17. apríl 2019
Birta treystir sér vel til að fjármagna nýbyggingu fyrir Tækniskólann
self.header_image.title

Birta er það stöndugur lífeyrissjóður að hann þarf hvorki að taka viðbótaráhættu né veita afslátt af arðsemiskröfum til að fjármagna byggingu nýs húss fyrir Tækniskólann.

Jakob Tryggvason, formaður stjórnar Birtu, lét þessi orð falla í skýrslu stjórnar á ársfundi lífeyrissjóðsins 11. apríl. Óhætt er að segja að ummælin hafi vakið athygli sjóðfélaga í salnum. Hann sagði að Birta og forverar hennar hefðu vissulega fjárfest í iðngreinum og í stórum iðnfyrirtækjum á borð við Marel, uppskorið þannig góða ávöxtun og stóreflt um leið tækni á Íslandi. Nú treysti sjóðurinn sér vel til að annast einn lánsfjármögnun stórra framkvæmda og nefndi Tækniskólann sérstaklega:

„Ef við lítum okkur nær nefni ég húsnæðismál Tækniskólans, menntastofnunar baklands Birtu að hluta. Í ársskýrslu sjóðsins eru myndir af nemendum Tækniskólans í iðn- og tæknigreinum, teknar í Hafnarfirði, Skerjafirði, Vörðuskóla og aðalbyggingunni á Skólavörðuholti. Nokkrum dögum eftir að myndir voru teknar af nemum í grafískum greinum í Vörðuskóla var nemendum og kennurum gert að forða sér þaðan sem fyrst þegar greindist húsmygla á hástigi.
Því nefni ég þetta að það myndi miklu breyta að koma allri starfsemi Tækniskólans undir eitt þak og Birta er það stöndugur lífeyrissjóður að hann þarf hvorki að taka viðbótaráhættu né veita afslátt af arðsemiskröfum til að fjármagna byggingu nýs skólahúss. Það væri verkefni í þágu verk- og tæknimenntunar og þar með samfélagsverkefni í besta skilningi.“
Ársfundur 2019

Ársfundur 2019

Ársfundur 2019