13. mars 2019
Birta á slóðum iðnnema
self.header_image.title

Það féll í góðan jarðveg í fyrra að sjá myndir af nemum í nokkrum iðngreinum í ársskýrslunni 2018 og á fundinum sjálfum. Þess vegna lá beint við að halda áfram á svipuðum nótum í ár en bera auðvitað niður í öðrum greinum nú en þá. Skólastjórnendur, kennarar og nemendur hafa enda tekið heimsóknum sendimanna Birtu sérlega vel og fagnandi.

iðnnemar

Atli Rúnar Halldórsson, sem stýrir framleiðslu ársskýrslu sjóðsins, og Hreinn Magnússon ljósmyndari hafa í ár og í fyrra farið í Tækniskólann, Menntaskólann í Kópavogi og í Borgarholtsskóla til að heilsa upp á og mynda nema í bifvélavirkjun, bílamálun, brauðgerð og bakstri, húsasmíði, húsgagnasmíði, pípulagningum, rafvirkjun og múrverki.

Nemendum er kynnt í hvaða tilgangi gestirnir eru mættir og tekið er skýrt fram að leitað sé eftir fullu samþykki hjá fyrirsætunum til að láta mynda sig fyrir Birtu lífeyrissjóð. Nöfn nemendanna fylgja með myndunum í ársskýrslunum. Fullur skilningur er á því ef einhver færist undan myndatöku en slíkt heyrir til hreinna undantekninga.

Oftar en ekki hafa nemendur í útskriftarárgöngum verið valdir og þá í myndrænum verkefnum til undirbúnings sveinprófs. Tækifærið er þá líka stundum notað til að taka hópmyndir af útskriftarnemunum og færa þeim í þakklætisskyni fyrir samstarfið. Þeir fá þá óvænt myndir úr lokaáfanga námsins sem ella hefðu ekki verið teknar og örugglega ekki af atvinnuljósmyndara mitt í sjálfu verknáminu!

Eðli máls samkvæmt nota nemendur stundum tækifærið til að spyrja um lífeyrissjóðinn og lífeyrissjóðamál yfirleitt. Verkefnisstjórinn og ljósmyndarinn lenda því í stöðu sendiherra Birtu og verða að standa fyrir máli sínu og sjóðsins, sem er bara gaman og gott!

Undantekningarlaust fellur það í mjög góðan jarðveg að Birta lífeyrissjóður skuli á þennan hátt sýna iðn- og verkmenntun í landinu áhuga og virðingu. Og víst er að vel er staðið að náminu í skólunum. Raun ber vitni um að fjöldinn allur af færu og áhugasömu fagfólki er á leið á vinnumarkaðinn og Birta lífeyrissjóður býður það velkomið sem sjóðfélaga.