17. apríl 2019
Hrikalegri skerðingu lífeyris almannatryggingu verður að linna
self.header_image.title

Jakob Tryggvason, stjórnarformaður Birtu, vék í skýrslu stjórnar á ársfundi lífeyrissjóðsins að margumtöluðum ímyndarvanda lífeyrissjóðakerfisins og sagði að ekki væri alltaf ljóst hvað menn hefðu þar sérstaklega í huga. Sjálfur kvaðst hann hins vegar ekki vera í vafa um hvar rætur ímyndarvandans lægju:

„Þannig tel ég hafið langt yfir allan vafa að skerðing lífeyris almannatrygginga stórskaði ímynd lífeyrissjóðakerfisins.
Óánægjan kraumar og nú heyrist spurt aftur og aftur: Hvers vegna borgum við yfirleitt í lífeyrissjóði þegar ríkið refsar okkur með því að hirða af okkur lífeyrinn frá Tryggingastofnun?
Margsannað er að þegar lífeyriskerfið var sett á laggir var því alltaf haldið á lofti að greiðslur úr lífeyrissjóðum yrðu til viðbótar lífeyri almannatrygginga. Dettur einhverjum í hug að lífeyrissjóðir hefðu fengið brautargengi með fögnuði og húrrahrópum ef fylgt hefði sögu að lífeyrir úr þeim kostaði þessa hrikalegu skerðingu í almannatryggingakerfinu sem þúsundir manna upplifa nú á eigin skinni og buddu?
Þessu verður að linna og sérstakt fagnaðarefni er að Landssamtök lífeyrissjóða taka nú undir með þeim sem krefjast breytinga. Heildarsamtök atvinnulífsins, bakland lífeyrissjóða á almennum markaði, ættu að beita sér fast og ákveðið gagnvart stjórnvöldum í tengslum við kjarasamningana nú til að skerðingarnar verði í það minnsta mildaðar verulega strax. Það á sérlega vel við núna því í maímánuði næstkomandi verður þess minnst að 50 ár eru liðin frá því skrifað var undir kjarasamning með ákvæði um skylduaðild að lífeyrissjóðum.“

Ársfundur 2019

Ársfundur 2019