15. febrúar 2018
Stýrimaður á áhættuvakt hjá Birtu
self.header_image.title

Eyrún Einarsdóttir

 

Margskonar áhætta fylgir starfsemi lífeyrissjóðs og er óhjákvæmilegur hluti tilverunnar. Markmið áhættustjóra og áhættustýringar er því ekki að útrýma áhættu sem slíkri heldur að greina hana og draga úr áhættu, stýra eða eyða henni þar sem það er mögulegt og vilji er til af hálfu stjórnar.

Aðalatriðið er með öðrum orðum að hafa alltaf sýn yfir áhættuþætti sem geta haft áhrif á reksturinn og hvernig helst megi bregðast við.

 

Öryggisventill í eftirlitskerfinu

„Áhættustjóri heyrir beint undir framkvæmdastjóra í skipuriti Birtu. Ég get líka átt milliliðalaust samskipti við stjórn sjóðsins, hef aðgang að öllum gögnum sem lögð eru fyrir stjórnina, fæ fundargerðir stjórnar og sæki af og til fundi sjóðsstjórnar til að ræða tiltekin mál eða um áhættustýringu í víðara samhengi. Þá sit ég í fjárfestingarráði Birtu og hef beinlínis það hlutverk að hafa þar eigin gleraugu á nefinu og rýna hlutina sjálfstætt.

Það getur verið að eignastýringarfólkið líti á tiltekin verkefni öðrum augum en ég, sem er bara eðlilegt. Þannig getur verið að áhættustjóra þyki óráðlegt að lána tilteknum umsækjanda í ljósi fjárhagsstöðu eða fjárhagslegra tengsla. Málið er þá rætt og fyrri ákvörðun hugsanlega breytt eða málinu vísað til ákvörðunar hjá stjórn.“

– Þannig gætir þú sem áhættustjóri lent upp á kant við bæði fjárfestingarráð og framkvæmdastjóra! Hvað gerist þá?

„Slíkar aðstæður hafa aldrei komið upp, fjarri því, en eru að sjálfsögðu ekki útilokaðar. Með aðkomu minni að málum og hvernig staða áhættustýringar er skipulagslega innan sjóðsins er starfinu tryggt sjálfstæði með beini aðkomu stjórnar ef þörf krefur. Ef svo færi myndi ég gera stjórn sjóðsins grein fyrir málinu og minni afstöðu og ræða málið á þeim vettvangi.

Ef krísan magnast gæti vissulega komið upp sú staða að ákveðið yrði að segja áhættustjóra upp störfum en lög kveða þá á um að slíkt megi ekki gera nema tilkynna Fjármálaeftirlitinu. Það er eins konar öryggisventill í eftirlitskerfinu.

Mér er annars uppálagt að láta Fjármálaeftirlitið vita ef veruleg frávik koma upp í rekstri sjóðsins eða einstaka þáttum hans.“

Yfirsýn og gagnrýnið eftirlit

Eyrún er með meistarapróf í tölfræði og lýðfræði frá Fordham University og stundar MBA-nám í Háskólanum í Reykjavík. Hún hóf starfsferilinn árið 2001 í fjármálaráðuneyti New York borgar, hóf síðan störf í innri endurskoðun Landsbankans og starfaði eftir það um hríð í innri endurskoðun Deloitte. Síðan var hún ráðin áhættustjóri Stafa lífeyrissjóðs árið 2013 og áhættustjóri Birtu lífeyrissjóðs eftir sameiningu Stafa og Sameinaða lífeyrissjóðsins síðla árs 2016.

Á verksviði Eyrúnar er m.a. að marka Birtu áhættustefnu sem er stofnskjal stjórnar sjóðsins um áhættustýringu. Hún fylgist með stöðu eigna Birtu og að staða eigna í heild og einstakra eignaflokka sé í samræmi við lög landsins, stefnu sjóðsins og innan samþykktra vikmarka á hverjum tíma.

„Mér er ætlað að hafa yfirsýn og vera gagnrýnin um leið. Kannski má lýsa þessu starfi sem millistykki í starfseminni, á milli ólíkra starfseininga eins og t.d. eignastýringar annars vegar og annarra þátta hins vegar.

Eðli starfsins samkvæmt má ég skipta mér af öllu sem varðar rekstur sjóðsins og rekstrarkostnað og benda á eitthvað sem mér finnst geta farið betur. Við viljum öll gera vel og hafa alltaf hagsmuni sjóðsins og sjóðfélaga að leiðarljósi.

Hluti af starfinu er að fara yfir og gæta þess að málum á okkar borðum ljúki formlega, til dæmis að fullnusta eignir og kanna hvernig eftirstöðvar standa hjá skuldurum í kjölfar sérstakra ráðstafana í kjölfar bankahrunsins. Það þarf að klára afskriftir og gæta þess að kröfum sé lýst þegar sjóðurinn tekur við eignum þeirra sem skulda en geta ekki staðið við skuldbindingar sínar. Gæta þess einfaldlega að hvergi séu lausir endar sem eiga að vera fastir. Betur sjá augu en auga. Starfsfólk í lánadeild og eignastýringu er störfum hlaðið og alltaf bætast við ný verkefni sem það þarf að takast á við.“

Krónan verður alltaf stór áhættuþáttur

– Hvað veldur áhættustjóra Birtu áhyggjum umfram annað ef hægt er að nefna eitthvað eitt umfram annað?

„Smæð íslenska hlutabréfamarkaðarins veldur vissulega áhyggjum, ekki fyrir hönd Birtu sérstaklega heldur lífeyrissjóðakerfisins yfirleitt. Sjóðirnir eru stórir og fyrirferðarmiklir fjárfestar í hlutabréfum og færa sig ekki auðveldlega af þessum litla heimamarkaði. Þetta er töluverður áhættuþáttur. 

Fjárfestingar erlendis draga úr áhættunni að hluta. Þegar hins vegar haft er í huga að skuldbindingar sjóðanna gagnvart sjóðfélögum sínum eru í íslenskum krónum verður krónan alltaf stór áhættuþáttur til framtíðar. Þeirri áhættu er ekki hægt að stýra nema sjálfar skuldbindingarnar verði tengdar líka erlendri mynt, með gjaldeyrisvörnum eða aðrar breytingar verði gerðar á lífeyrissjóðakerfinu.“ 

Margt í umhverfinu getur haft áhrif á lífeyri

– Auðvitað er fjöldamargt í umhverfinu, samfélaginu og náttúrunni sem getur haft mikil áhrif á starfsemi lífeyrissjóða og flokkast sem áhætta. Veltið þið vöngum yfir því líka?

„Já, við öðluðumst dýrkeypta reynslu eftir bankahrunið og kynntumst því að það sem á ekki að geta gerst gerist því miður á stundum! Efnahagshrunið hafði hjákvæmilega mikil og bein áhrif á afkomu landsmanna, þar á meðal á kjör fólks á eftirlaunum. 

Afleiðingar eldgosa og annarra náttúruhamfara geta líka haft áhrif á lífeyri sjóðfélaga, hrun fiskistofna við landið, mikil og skyndileg verðlækkun á fasteignamarkaði og efnahagsþrengingar með tilheyrandi atvinnuleysi af hvaða völdum sem slíkt ástand kann að skapast.

Við höfum búið við gríðarlegan straum erlendra ferðamanna hingað undanfarin ár og mikið innflæði gjaldeyris hefur stuðlað að því að halda niðri verðbólgu á Íslandi. Ef þetta innflæði minnkar eða verðbólga eykst af öðrum ástæðum hefur það bein áhrif á afkomu sjóðfélaga lífeyrissjóða. Hætta eykst þá á því að skerða verði lífeyrisréttindi til að halda lögboðnu jafnvægi eigna og skuldbindinga í kerfinu, líkt og dæmin sanna úr fortíðinni.

Áhættustjóri lífeyrissjóðs hefur því um nóg að hugsa. Eiginlega má segja að lesa megi milli lína í starfslýsingunni að sá sem slíkri stöðu gegnir eigi aldrei að vera áhyggjulaus!“