18. maí 2018
Stelpur í fyrsta sinn í meirihluta útskrifaðra bakara
self.header_image.title

Birta-bakarar-TB18215.jpg

„Við útskrifum sex bakara í vor, þar af fjórar stelpur. Þær eru nú fleiri en strákar í útskriftarnema í fyrsta sinn. Ég er stolt af því,“ segir Ásthildur Elín Guðmundsdóttir, bakari og kennari í bakaraiðn í Menntaskólanum í Kópavogi.

„Ég var eina stelpan í bakstursnámi á sínum tíma og kennarinn minn sagði samt við okkur „strákar mínir“ allan veturinn!“

Birta lífeyrissjóður fékk góðfúslegt leyfi í vor til að taka myndir af MK-nemendum í bakaraiðn og nota í ársskýrslu 2017 og á vefnum sínum.

 

Annars vegar í tvískiptu rými skreyttu útskriftarnemar kökur og bjuggu til páskaegg, hins vegar steiktu grunnnámsnemar kleinur og föndruðu við fleira heimilslegt í brauðgerð.

Sumir í grunnnámi halda áfram í brauðiðninni og útskrifast sem bakarar eftir fjögur ár, aðrir fara deildir kjötiðnar, framreiðslu, matreiðslu eða ferðamálafræði og útskrifast þaðan í fyllingu tímans.

Kjötiðn hafði á tímabili svo gott sem gefið upp öndina sem námsgrein í MK vegna nemendaskorts en braggaðist í vetur. Horfur fyrir komandi skólaár eru góðar sem betur fer. Almennilegt samfélag þrífst tæpast án kjötiðnaðarmanna.

 

Ásthildur kennari er þrautreynd í faginu. Hún útskrifaðist sem bakari vorið 1985 fyrst reykvískra kvenna í 40 ár eða frá því 1945! Á öllum þessum áratugum hafði ein kona útskrifast sem bakari á Akureyri en engin í höfuðborginni. Nú er öldin önnur.

Sveinsprófið tók Ásthildur í Breiðholtsbakaríi þar sem faðir hennar var bakarameistari. Hún fæddist því inn í brauðgerð og bakstur og hafði af mikilli reynslu að miðla þegar hún sýndi ungviðinu í MK hvernig góðar kleinur verða til á borði bakarans og eru færðar upp á fat úr í potti steikjarans, fagurbrúnar, stökkar og unaðslega bragðgóðar.

Það er von á góðu frá brauðgerðarmönnum framtíðarinnar eftir fyrstu skref á ferlinum með meistaralegri leiðsögn í Kópavogi.

Myndir: Hreinn Magnússon/Eitt stopp