17. október 2019
Gamma Novus-málið snýst um trúnaðarbrest og þarf að upplýsast
self.header_image.title

Frá fulltrúaráðsfundi 2019

Birta fjárfesti í fasteignafélaginu Novus fyrir 200 milljónir króna árið 2013. Birta fékk greiddan arð upp á 68 milljónir króna af fjárfestingunni í desember 2017. Nettófjárfestingin er því upp á 132 milljónir króna og í ágústlok 2019 var eign Birtu í Novus metin á 310 milljónir króna.

Í byrjun árs 2019 var eigið fé Novus metið um 4,4 milljarðar króna en einungis þremur ársfjórðungum síðar var það fært niður í 42 milljónir króna!

„Bókaðar fjárfestingartekjur Birtu námu hátt í 39 milljörðum króna á fyrri helmingi árs 2019. Færsla 310 milljóna króna í Novus niður í ekki neitt svarar til 0,01% af eignum Birtu og rýrir ávöxtun eigna sjóðsins um 0,08% á fyrstu sex mánuðum ársins 2019.
Vissulega tapast fjármunir en mér þykir verst og óþægilegast að standa frammi fyrir þeirri staðreynd að hluthafar í Novus hafi fengið í hendur endurskoðaðan ársreikning fyrir 2018 frá einu af stóru endurskoðunarfyrirtækjunum og eignamat sem endurskoðendurnir staðfestu. Svo líða fáeinir mánuðir og þá eru skráð milljarðaverðmæti færð fyrirvaralaust niður í núll!
Hvernig má það vera að ársreikningurinn hafi verið staðfestur án nokkurra athugasemda?“

Ólafur sagði enn fremur að endurskoðunarfyrirtækinu Grant Thornton hefði verið falið að kanna rekstur Novus frá 2015 til 2019. Þar yrði að fara rækilega ofan í sauma starfseminnar og velt við öllum steinum í leit að sannleika og staðreyndum.

Framkvæmdastjórinn fékk meðal annars spurningar úr sal um hvort eitthvað saknæmt hefði gerst í reksti Novus? Hann svaraði því til að Birta hefði engar upplýsingar fengið um slíkt. Hann bætti við:

„Svona nokkuð á ekki að geta gerst og vekur upp spurningar um hvort Birta eigi að rýna betur óskráðar eignir sínar þegar kemur á daginn að verðmat virts endurskoðunarfyrirtækis er ekki marktækara en raun ber vitni.
Þetta varðar trúverðugleika á marga vegu, til dæmis gagnvart verktakafyrirtækjum sem fá lán út á mat á eignum og gagnvart fasteignasjóði sem eftirlitsskyldur aðili rekur.
Hvernig gat þetta gerst? Það er stór spurning sem verður að fá svar við.“

Fulltrúaráðsfundur 2019