03. október 2019
Greiðslur eftirlaunalífeyris um 760 milljónir á mánuði það sem af er ári
self.header_image.title

Haust

Fullur lífeyrisréttur miðast við 67 ára aldur. Hægt er að flýta töku eftirlauna allt frá 60 ára aldri eða seinka töku lífeyris til allt að 80 ára aldri. Hægt er að sækja um eftirlaun rafrænt í gegnum rafrænar umsóknir Birtu með rafrænum skilríkjum.

Sigþrúður Jónasdóttir, forstöðumaður lífeyrissviðs segir að rafrænar umsóknir hafi aukist töluvert frá því í fyrra og má því segja að sjóðfélagar hafi tileinkað sér tæknina og þægindin sem felast í því að sækja um rafrænt á heimasíðu Birtu.

„Okkur hafa borist 1160 umsóknir um eftirlaun frá janúar til loka septembermánaðar. Af þessum umsóknum eru 416 umsóknir frá virkum sjóðfélögum Birtu en aðrar umsóknir hafa borist frá öðrum sjóðum. Af þessum 416 umsóknum eru 233 umsóknir sem komið hafa rafrænt til okkar eða um 56%. Okkar markmið er að fleiri sjóðfélagar sæki um með rafrænum hætti þar sem sú leið er bæði auðveld og aðgengileg“.

Sigþrúður bendir á að sjóðfélagar geti fengið upplýsingar um lífeyrisréttindi sín á sjóðfélagavef Birtu. Þar er hægt að nálgast réttindi í öðrum sjóðum með því að fara inn á Lífeyrisgáttina. Þjónustufulltrúar okkar veita einnig persónulega þjónustu og svara spurningum sjóðfélaga sem gætu vaknað á þessum tímamótum.