12. apríl 2019
Ingibjörg Ólafsdóttir nýr stjórnarformaður Birtu
self.header_image.title

Ingibjörg Ólafsdóttir, hótelstjóri Radisson Blu Hótels Sögu, er nýkjörin stjórnarformaður Birtu lífeyrissjóðs að tillögu Samtaka atvinnulífsins. Hún var áður varaformaður stjórnar.

Ingibjörg og Jakob Tryggvason, formaður Félags tæknifólks í rafiðnaði og sviðsstjóri miðlunar- og tæknigreina hjá Rafmennt, höfðu sætaskipti í stjórn Birtu að loknum ársfundi lífeyrissjóðsins í gær. Jakob lét af formennsku sem fulltrúi launamanna og tók við af Ingibjörgu sem varaformaður stjórnar. Fulltrúar launamanna og Samtaka atvinnulífsins gegna þannig formennsku og varaformennsku til skiptis í eitt ár í senn.

Ný stjórn Birtu 2019

Ný aðalstjórn Birtu lífeyrissjóðs og einn varastjórnarmaður að loknum ársfundi á Grandhóteli í Reykjavík í gær. Frá vinstri: Guðrún Jónsdóttir, Pálmar Óli Magnússon, Guðrún Elfa Hjörleifsdóttir, Davíð Hafsteinsson, Jakob Tryggvason, Hrönn Jónsdóttir, Ingibjörg Ólafsdóttir, Garðar A. Garðarsson og Hilmar Harðarson. Á myndina vantar varastjórnarmennina Bolla Árnason, Guðbjörgu Guðmundsdóttur og Báru Halldórsdóttur.

Endurkjörin í stjórnina af hálfu launafólks voru Hrönn Jónsdóttir, Jakob Tryggvason og Guðrún Elfa Hjörleifsdóttir sem aðalmenn en Bára Halldórsdóttir til vara. Hilmar Harðarson er nýr aðalstjórnarmaður launafólks og Garðar A. Garðarsson nýr varamaður af hálfu launafólks.

Atvinnurekendamegin voru allir aðal- og varafulltrúar endurkjörnir: Ingibjörg Ólafsdóttir, Pálmar Óli Magnússon, Davíð Hafsteinsson, Guðrún Jónsdóttir, Bolli Árnason og Guðbjörg Guðmundsdóttir.

Í lok aðalfundarins voru fráfarandi aðal- og varastjórnarmennirnir Gylfi Ingvarsson og Einar Hafsteinsson kvaddir með þökkum og blómum.

Gylfi og Einar kvaddir
Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu, kvaddi Einar Hafsteinsson t.v. og Gylfa Ingvarsson með virktum í lok ársfundarins.