11. júní 2019
Skyggnst um á „nýju“ Hóteli Sögu, vinnustað nýs stjórnarformanns Birtu
self.header_image.title

„Hótel Saga var um árabil toppurinn, flottasta hótelið á Íslandi og rómað fyrir þjónustu, aðbúnað og allt sem máli skiptir fyrir gesti. Við ætlum að koma því á ný í fremstu röð, trúðu mér!“

Svo mikill sannfæringarkraftur fylgir þessum orðum Ingibjargar Ólafsdóttur að þau jafngilda skuldbindingu um að draumur verði að veruleika og það fyrr en síðar. Hún tók við hótelstjórn á Sögu í byrjun árs 2012, er sömuleiðis nýkjörin formaður stjórnar Birtu lífeyrissjóðs og var áður í stjórn Stafa lífeyrissjóðs. Nú er hún að hefja áttunda og síðasta árið sitt í stjórn lífeyrissjóðs, fulltrúi Samtaka atvinnulífsins og stjórnarformaður í fyrsta sinn.

Svo er Ingibjörg líka varaformaður stjórnar Samtaka ferðaþjónustunnar. Erna Hauksdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri þeirra samtaka stakk upp á því á sínum tíma að Ingibjörg gæfi kost á sér til stjórnarsetu í Stöfum. Þá var Ingibjörg nýflutt til Íslands eftir að hafa stýrt hótelum í eigu þriggja fyrirtækja þeirri grein, hverju á fætur öðru. Fyrst Radisson, svo Holiday Inn og loks Park Plaza.

„Ég þekkti lítið til starfsemi lífeyrissjóða en sló til, ekki síst vegna þess að ég þekkti til Ólafs Sigurðssonar, framkvæmdastjóra Stafa og núverandi framkvæmdastjóra Birtu. Hann er vandaður maður og fær í sínu fagi og ég taldi víst að sjóðfélagar Stafa væru vel settir með hann í forystu og stjórn sjóðsins sömuleiðis. Það kom líka á daginn.

Stjórnarreynsla í lífeyrissjóði er góð og dýrmæt. Miklar kröfur eru gerðar til okkar í stjórninni og þannig á það líka að vera. Við berum ábyrgð á rekstri og fjárfestingum og finnum mjög til ábyrgðar í því hlutverki að ávaxta sem best ævisparnað fjölda fólks. Stjórnarstörfum fylgir heilmikill lestur skjala og skýrslna og mér finnst ágætt að kúpla mig út úr hótelheiminum til að takast á við áskoranir í Birtu.

Ingibjörg á hótel Sögu
Ingibjörg hótelstjóri í ríki sínu. Sagan er alls staðar nálæg á Sögu. Mímisbar var þar þegar hótelið var opnað og er þar enn, endurnýjaður en klassískur.

Samstarfið gengur afar vel, stjórnarmenn skiptast á skoðunum og komast yfirleitt alltaf að sameiginlegri niðurstöðu. Það gerist sárasjaldan að okkur greini umtalsvert á um til dæmis fjárfestingarkosti og stjórnin vinnur með starfsfólkinu sem einn samhentur hópur í þágu sjóðfélaganna. Við erum ekki í þessu sem fulltrúar atvinnurekenda og launafólks nema að forminu til.

Stundum finnst mér nýju verkalýðsforingjarnir tala ógætilega og ómaklega um lífeyrissjóðakerfið og lýsa sig til dæmis andvíga því að atvinnurekendur skipi fulltrúa sína í stjórnir sjóðanna. Slík umræða er í besta falli yfirborðskennd þar sem mismunandi reynsla og þekking er nauðsynleg inn í stjórnina. Lífeyrissjóðakerfið varð til í kjarasamningum og er á ábyrgð heildarsamtaka atvinnurekenda og launafólks. Lífeyrissjóðirnir sitja oft undir ómaklegri gagnrýni sem í raun tengist aðkomu stjórnvalda. Stjórnarfyrirkomulagið er farsælt og hæfir hlutverki lífeyrisjóðanna.“

Áberandi virðing fyrir sögu og verkmenningu

Ingibjörg ólst nánast upp á Hótel Sögu og þekkir þar hvern krók og kima fyrr og síðar. Móðir hennar starfaði í veitingadeild hótelsins og sjálf byrjaði hún í gestamóttökunni 1984. Fjölskyldan bjó í Vesturbæ Reykjavíkur og foreldrarnir héldu yfirleitt upp á brúðkaupsafmælin á Sögu. Þau gistu reyndar þar sjálfa brúðkaupsnóttina og Ingibjörg líka því móðir hennar bar hana þá undir belti!

Hótel Saga skráir því nánast ævisögu nýs stjórnarformanns Birtu og gerir áfram. Ingibjörg á nefnilega margt ógert þar enn. Staðið hafa yfir afar umfangsmiklar breytingar á jarðhæðinni og víðar í hótelbyggingunni. Hamarshögg og skruðningar fylgdu umrótinu

en nú er sú tíð að baki.

ingibjorg2
Ingibjörg Ólafsdóttir, nýkjörinn stjórnarformaður Birtu og hótelstjóri á Radisson Blu Saga Hotel, með starfsfólki (og Matvís-félögum!) í eldhúsi nýs veitingastaðar, Mímis, á jarðhæð Hótels Sögu. Frá vinstri: Skúli Leifsson matreiðslumaður, Nickolai Ceasarrio matreiðslunemi, Snædís Xyza Mae Ocampo Jónsdóttir matreiðslumaður, Dagný Hammer matreiðslunemi og Ingibjörg.

Virðing fyrir sögunni, menningunni og vönduðu handverki er það sem kemur upp í hugann þegar skyggnst erum á hótelinu eftir breytingar. Þarna hefur umhverfið yngst upp í eigin anda, til að mynda með húsgögnum sem eru íslensk smíð. Hönnun þeirra og sjálfra breytinganna í húsinu rekur líka rætur til upphafs hótelrekstrar árið 1962.

Halldór H Jónsson var arkitekt hótelsins í upphafi, sonur hans Garðar Halldórsson tók við og á heiðurinn af viðbyggingunni, „Framhaldssögunni“. Hornsteinar arkitektar ehf. hafa svo séð um nýjustu breytingarnar. Þar hefur tekist afar vel að sameina það besta frá feðgunum eins og hver og einn getur staðfest með eigin augum.

Falinn fjársjóður frá Lothar Grund

ingibjorg3

Myndir eftir Lothar Grund og raunar listbragð hans yfirleitt fær nú aftur þann sess sem því ber á Sögu. Hann var þýskur leiktjaldamálari, innanhússarkitekt og listmálari sem flutti til Íslands eftir heimsstyrjöldina síðari, starfaði bæði í Iðnó og Þjóðleikhúsinu og fyrir Hótel Sögu. Hann mótaði þar upprunalegt útlit herbergja og veislusala, teiknaði og málaði líka myndir sem urðu þjóðþekktar í auglýsingum og kynningarefni hótelsins.

Við nýlegar breytingar í stigagangi komu óvænt í ljós upprunalegar myndir sem Lothar Grund hafði málað beint á veggi en leyndust á bak við innréttingar. Myndirnar eru ekkert minna en menningarsöguleg verðmæti og endurfundir við þær vöktu mikinn fögnuð hótelrekendanna. Verkin verða lagfærð til að njóta sín til fulls, segir hótelstjórinn.

„Myndirnar eftir Lothar Grund sem hanga hér á veggjum vekja athygli og áhuga gestanna. Hluti af „kúltúrnum“ okkar er að starfsfólkið þekki söguna, gefi sig á tal við gestina og upplýsi þá um listamanninn og hönnuðinn og sýni þeim hvernig andi hans lifir í húsinu.

ingibjorg5

ingibjorg6

Við hefðum auðvitað getað flutt húsgögn inn í gámum frá Asíu líkt og margir aðrir í hliðstæðum rekstri en kjósum frekar íslenska framleiðslu. Sá kostur er vissulega ögn dýrari en varan er vönduð og viðhaldsþjónustan nærtæk. Ef eitthvað kemur fyrir stól á Sögu fá GÁ húsgögn skilaboð og bjarga málum á stundinni.

Við hugsum til langs tíma. Vönduð hönnun og íslensk framleiðsla fellur vel að þeirri hugmyndafræði. Reyndar sú hugsun víðar í starfseminni. Hótel Saga er matarhöll bændanna sem eiga hana. Við erum með vinnslueldhús í kjallaranum og nýtum allt sem til fellur af kjötskrokkum. Við bökum sjálf brauðið sem borið er á borð og stefnan er að kaupa það sem ekki er hægt að rækta á Íslandi af erlendum bændum.“

Fall WOW air hafði greinileg áhrif í apríl

Árið 2019 hefur ekki verið snautt af atburðum sem hafa haft áhrif á starfsemina á Hóteli Sögu og íslenska ferðaþjónustu yfirleitt. Hluti starfsfólks hótelsins fór í tveggja sólarhringa verkfall til að þrýsta á nýja samninga um kaup og kjör. Svo fór flugfélagið WOW air á hliðina og heyrir sögunni til.

„Verkfallsdagarnir voru mjög erfiðir og reyndar fannst mér það einkennileg ákvörðun verkalýðsfélaga að stofna til vinnustöðvunar á sérvöldum hótelum og rútufyrirtækjum, sem bitnuðu aðallega á erlendum gestum á Íslandi. Við reyndum að vinna úr þessu eins kostur var og upplýstum viðskiptavinina um stöðuna. Þeir sýndu því skilning að fá ekki alla þá þjónustu sem vænta mátti.

Við fundum vel fyrir falli WOW air. Bandarískum gestum snarfækkaði og apríl var lélegur hjá okkur líkt og hjá ferðaþjónustufyrirtækjum yfirleitt. Gestum frá Mið-Evrópu hefur hins vegar fjölgað nokkuð og við vonumst til að þeim fjölgi enn frekar. Þegar til lengri tíma er litið birtast gestir frá Bandaríkjunum vonandi aftur í stærri stíl. Við leggjum mikla áherslu á þann markað enda kunna Bandaríkjamenn áberandi vel við sig á Sögu.

Blikur eru á lofti í ferðaþjónustunni yfirleitt og kemur þar fleira til en gjaldþrot WOW air. Launahlutfallið í rekstri fyrirtækjanna er orðið óhemju hátt og raunar út úr öllu korti. Íslensk króna er rosalega sterk og verðlagið í samræmi við það. Rekstrarumhverfið er erfitt og ég sé fyrir mér að fyrirtækjum í ferðaþjónustu fækki, með sameiningum eða að menn halda þetta ekki út og neyðast til að hætta starfsemi sinni.

Góðu fréttirnar eru hins vegar áfram þær að Ísland ER eftirsóknarverður áfangastaður ferðamanna. Ef stjórnvöld og ferðaþjónustan halda rétt á spilum er fækkun ferðafólks í augnablikinu einungis tímabundið ástand.

Hvað okkur varðar þá er Hótel Saga tilbúin í samkeppni á markaðnum eftir endurnýjun. Frábær aðstaða er til funda- og ráðstefnuhalds og við kynnum með stolti nýjan veitingastað á jarðhæðinni, Mími. Gaman er að sjá þess glögg merki að Vesturbæingar líta orðið á Mími sem hverfisveitingahúsið sitt og koma í vaxandi mæli í hádeginu og á kvöldin. Og hér er endurnýjaður Mímisbar.

Já, og vel að merkja, Grillið á efstu hæðinni er enn á sínum stað! Mælt er nú með því í víðfrægum lista Michelin, annað árið í röð.

Þeir sem muna Sögu eins og hún var geta glaðst yfir því að hún hefur endurnýjast í gamla en góða andanum.“

Stjórnaði „hjáleigunni“ í 15 ár

Bændasamtökin reistu Hótel Sögu og hafa átt það og rekið frá 1962. Þetta er reyndar eina hótelið á Íslandi sem getur státað af óbreyttu eignarhaldi á fasteign og rekstri frá upphafi, í móðurfélagi bændanna. Sama félag átti líka og rak í mörg ár Hótel Ísland. Ingibjörg var þar hótelstjóri í 15 ár og stýrði „hjáleigunni“. Frá 1999 hefur Saga verið rekin sem hluti af Radisson-keðjunni, fyrst samkvæmt stjórnunarsamningi en síðar leyfissamningi.

Ingibjörg reyndi fyrir sér á öðrum sviðum fyrr á árum. Hún leysti til að mynda af í banka og kenndi í tvo vetur á Ísafirði. Svo lauk hún BA-námi í dönsku með þýsku sem aukafag í Háskóla Íslands en vann allan tímann á Sögu með náminu. Þá innritaðist hún í háskólanám í Þýskalandi en var þar ytra einungis í eitt ár. Hótelið á Melunum togaði alltaf í hana og þar var henni greinilega ætlað að starfa og hvergi annars staðar.

Framkvæmdir og breytingar hafa eðlilega átt hug hótelsstjórans að miklu leyti undanfarin ár en nú er farið að hægjast um í þeim efnum og Ingibjörg ætlar að hella sér út í markaðs- og sölumálin.

„Ég prófaði ýmislegt fleira en að starfa á hóteli og reka hótel en ég held að ég hefði aldrei þrifist í annarri starfsgrein. Hótelbransinn valdi mig frekar en að ég hafi valið hann.“

ingibjorg8
Himnastigi? Nei, horft upp um hæðir á Sögu.