Skyldusparnaður


„Fólk ver oft drjúgum tíma í að velja sér nýjan flatskjá eða snjallsíma en hirðir lítið um að kynna sér lífeyrisréttindin, mikilvægustu veraldlegu eign sína í mörgum tilvikum.“ Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða

Allt vinnandi fólk á aldrinum 16-70 ára á lögum samkvæmt að greiða í lífeyrissjóð. Lögbundið skylduiðgjald er 15,5% frá 1. júlí 2018 og skiptist í 4% eigið framlag launafólks og 11,5% framlag launagreiðanda. Stefnt er að því að lögbundið skylduiðgjald verði 15,5% frá 1. júlí 2018 vegna hækkunar á framlagi launagreiðanda.

Rétt er að vekja athygli á því að öllum sem eru aðilar að kjarasamningum milli ASÍ og SA, gefst kostur á að ráðstafa að öllu leyti eða hluta því iðgjaldi sem er umfram 12% skylduframlag í svokallaða tilgreinda séreign. Þegar framlagi umfram 12% skylduframlag er ráðstafað að hluta eða öllu leyti í tilgreinda séreign verða iðgjöld sem renna í samtryggingu lægri en ella. Því verður áunninn réttur til ævilangs lífeyris lægri sem því nemur. Sama gildir um rétt til áfallatrygginga s.s. örorku-, maka- og barnalífeyris.

 • Lögbundnar greiðslur í lífeyrissjóð mynda rétt til ævilangra eftirlaunalífeyrisgreiðslna auk réttar til örorku-, maka- og barnalífeyris.
 • Launafólki getur borið skylda til að greiða í tiltekinn lífeyrissjóð samkvæmt kjarasamningi eða ráðningarsamningi.
 • Réttur til lífeyris fellur ekki niður þótt sjóðfélagi hætti að greiða til sjóðsins heldur geymist rétturinn þar til taka lífeyris hefst.
 • Flestir eiga lífeyrisréttindi í fleiri en einum sjóði, en ekki er heimilt að flytja almenn lífeyrisréttindi á milli lífeyrissjóða.
 • Áunnin lífeyrisréttindi og lífeyrisgreiðslur eru verðtryggðar og taka sömu breytingum og vísitala neysluverðs.
 • Lífeyrisréttindi eru persónubundin og því er ekki hægt að framselja þau. Sjóðfélagi og maki geta þó fyrir 65 ára aldur gert með sér samkomulag um skiptingu eftirlaunalífeyrisréttinda.

Söfnun réttinda


Lífeyrisréttindi ákvarðast af því iðgjaldi sem greitt hefur verið til sjóðsins og hefur hvorki hámark né lágmark. Eftir því sem iðgjöldin eru hærri, þeim mun meiri eru réttindin.

Birta lífeyrissjóður er hefðbundinn starfsgreinasjóður sem félagar tiltekinna stéttarfélaga eiga skylduaðild að. Sjóðurinn er jafnframt opinn öllum, sem ekki eru skylduaðilar að öðrum lífeyrissjóði samkvæmt lögum, kjara- eða ráðningarsamningum. Þetta á einnig við um sjálfstæða atvinnurekendur sem hafa frjálst val um lífeyrissjóð. Öllum er heimilt gera samning um séreignarsparnað hjá Birtu lífeyrissjóði.

 • Ávinnsla réttinda er misjöfn eftir lífeyrissjóðum og fer meðal annars eftir réttindatöflum og samþykktum hvers sjóðs en þar er kveðið á um hvernig réttindum er skipt milli sjóðfélaga og eftir atvikum, barna þeirra og maka.
 • Núverandi réttindaávinnsla er aldurstengd, sem þýðir að yngri sjóðfélagar fá meiri réttindi en eldri fyrir sama iðgjald. Hún byggist á því að verðmæti iðgjaldanna er meira eftir því sem það ávaxtast lengur hjá lífeyrissjóðnum.
 • Hægt er að bera saman ávinnslu réttinda milli sjóða með reiknivélum sem áætla lífeyrisréttindi á síðu hvers sjóðs eða með því að bera saman réttindatöflur sjóðanna.
 • Fram til ársins 2004 byggðist réttindakerfi lífeyrissjóðsins eingöngu á jafnri réttindaávinnslu, sem þýðir að sömu lífeyrisréttindi fást fyrir sama iðgjald óháð aldri.
 • Þegar tekin var upp aldurstengd réttindaávinnsla öðluðust sjóðfélagar Sameinaða lífeyrissjóðsins sem voru 25 ára og eldri í árslok 2005, rétt til að halda áfram iðgjaldagreiðslum í sjóðinn samkvæmt jafnri réttindaávinnslu, upp að ákveðnu hámarki, svokölluðu viðmiðunariðgjaldi. Lögð er áhersla á að þessir sjóðfélagar kynni sér þennan rétt en nánar er fjallað um viðmiðunariðgjald hér að neðan.

Yfirlit um réttindi


Lífeyrisgáttin veitir upplýsingar um lífeyrisréttindi í öðrum sjóðum, að undanskildum séreignarsparnaði.

Lífeyrisgáttin er á sjóðfélagavef Birtu lífeyrissjóðs. Þar eru einnig upplýsingar um innborganir og ávöxtun á séreignarsparnaði Birtu lífeyrissjóðs, skil launagreiðanda á iðgjöldum og eftirstöðvar sjóðfélagalána.

Vanskil iðgjalda


Lífeyrisréttindi geta tapast vegna vanskila launagreiðanda

Iðgjöld, sem launagreiðandi hefur sannanlega haldið eftir af launum sjóðfélagans, en ekki staðið skil á til sjóðsins, sem og mótframlag launagreiðanda, skal þrátt fyrir vanskilin meta að fullu til réttinda fyrir viðkomandi sjóðfélaga við úrskurð lífeyris, enda hafi sjóðnum verið kunnugt um þessi vanskil. Þetta gildir þó eingöngu um launafólk. Önnur viðmið gilda um iðgjaldagreiðslur eigenda og stjórnenda fyrirtækja og um sjálfstæða atvinnurekendur.

Birta lífeyrissjóður sendir greiðandi sjóðfélögum yfirlit um iðgjöld og réttindi tvisvar á ári. Yfirlitinu fylgir áskorun um að gera án tafar athugasemdir ef í ljós koma vanhöld á iðgjaldaskilum. Einnig geta sjóðfélagar fylgst með iðgjaldaskilum launagreiðanda á sjóðfélagavef Birtu lífeyrissjóðs.

 • Til að njóta ábyrgðar þurfa upplýsingar um vangreidd iðgjöld að berast sjóðnum innan 6 mánaða frá því iðgjaldatímabili sem þau tilheyra.
 • Eldri iðgjöld njóta hvorki ábyrgðar lífeyrissjóðsins né hjá Ábyrgðarsjóði launa, komi til gjaldþrots launagreiðanda.
 • Birta lífeyrissjóður tekur við iðgjaldagreiðslu frá sjálfstæðum atvinnurekanda með ákveðnum fyrirvara berist hún eftir eindaga. Fyrirvarinn felur í sér að þegar úrskurðað er um örorku eða makalífeyri, ber að skoða sérstaklega iðgjöld sem greidd eru eftir eindaga.

Viðmiðunariðgjald


Til að tryggja hagsmuni sjóðfélaga sem höfðu áunnið sér réttindi framan af starfsævinni í jafnri ávinnslu, var ákveðið að þeir sem greiddu iðgjöld í Sameinaða lífeyrissjóðinn árið 2005 og voru 25 ára eða eldri, gætu haldið jafnri réttindaávinnslu út starfsævina upp að tilteknu hámarki sem tekur mið af verðbættu viðmiðunariðgjaldi.

Viðmiðunariðgjald var tekið upp þegar skipt var um réttindakerfi. Tekið var upp aldurstengt réttindakerfi þar sem yngri sjóðfélagar fá meiri réttindi en eldri sjóðfélagar þótt greitt sé sama iðgjald. Þetta byggir á því að verðmæti iðgjalda er meira eftir því sem það ávaxtast lengur hjá lífeyrissjóðnum. Aldurstengd réttindi fara eftir réttindatöflum.

Fram til ársins 2004 fengu allir sjóðfélagar sömu lífeyrisréttindi fyrir sama iðgjald óháð aldri. Það kallast jöfn ávinnsla réttinda. Sjóðfélagar, sem voru yngri en 25 ára, höfðu mikinn hag af því að taka upp aldurstengt réttindakerfi. Til að koma til móts við sjóðfélaga 25 ára og eldri, og tryggja jafnræði í réttindaávinnslu, voru iðgjöld þeirra í lífeyrissjóðinn árið 2005 notuð til viðmiðunar á rétti til framtíðar greiðslu iðgjalda í jafna réttindaávinnslu.

 • Samkvæmt jafnri ávinnslu réttinda eru lífeyrisréttindi 1.203 kr. fyrir hvert 10.000 kr. iðgjald.
 • Viðmiðunariðgjald er persónubundið og tekur mið af iðgjöldum sem greidd eru á einu ári.
 • Viðmiðunariðgjald er uppreiknað með vísitölu neysluverðs.
 • Viðmiðunariðgjald kemur fram á sjóðfélagavef Birtu og sjóðfélagayfirliti sem sent er út tvisvar á ári. Viðmiðunariðgjaldið er birt eins og það stóð í upphafi og einnig uppreiknað með vísitölu neysluverðs.
 • Iðgjald hvers árs umfram verðbætt viðmiðunariðgjald færist í aldurstengda ávinnslu.
 • Verðmæti viðmiðunariðgjalds vex með hækkandi aldri og gefur til dæmis 74% meiri réttindi fyrir 66 ára einstakling en aldurstengd réttindaávinnsla.
 • Ekki er hægt að færa rétt til viðmiðunariðgjalds til annarra lífeyrissjóða. Lögð er áhersla á að sjóðfélagar kanni verðmæti þessa réttar ef þeir skipta um starf eða hyggjast af öðrum ástæðum greiða til annars lífeyrissjóðs.

Dæmi um ávinnslu réttinda

Aldur sjóðfélaga Lífeyrisréttur í jafnri ávinnslu Lífeyrisréttur í aldurstengdu kerfi
29 ára 1.203 kr. 2.080 kr.
39 ára 1.203 kr. 1.470 kr.
49 ára 1.203 kr. 1.130 kr.
59 ára 1.203 kr. 889 kr.

Í aldurstengdu kerfi veitir 10.000 kr. iðgjald fyrir 29 ára sjóðfélaga rétt til 2.080 kr. lífeyris á ári en 889 kr. fyrir 59 ára sjóðfélaga. Til að tryggja jafnræði í ávinnslu réttinda þegar skipt var um réttindakerfi voru iðgjöld sjóðfélaga árið 2005, þá 25 ára og eldri, notuð til viðmiðunar á rétti til framtíðar greiðslu iðgjalda í jafna réttindaávinnslu. Gefum okkur sem dæmi að tveir 59 ára sjóðfélagar greiði í Birtu lífeyrissjóð. Báðir eru með 400.000 kr. í mánaðarlaun, greiða lögum samkvæmt 50.000 kr. á mánuði í lífeyrissjóðs og munu hefja lífeyristöku 67 ára.

 • Sjóðfélagi A á ekki rétt á viðmiðunariðgjaldi.
 • Sjóðfélagi B á rétt á viðmiðunariðgjaldi. Viðmiðunariðgjald er persónubundið en gefum okkur að viðmiðunariðgjaldið sé 300.000 kr. á einu starfsári, eða 25.000 kr. á mánuði, miðað við greidd iðgjöld árið 2005 verðbætt til dagsins í dag.

Eins og sjá má í töflum hér að neðan er lífeyrisréttur sjóðfélaga B 785 kr. meiri en hjá sjóðfélaga A, fyrir hvern unnin mánuð. Á einu ári munar 9.420 kr. á lífeyrisrétti þessara tveggja sjóðfélaga. Eftir því sem aldur er hærri minnka aldurstengd réttindi meira og viðmiðunariðgjaldið fær sífellt meira vægi í réttindaöflun.

Sjóðfélagi A Mánaðarleg greiðsla í lífeyrissjóð Réttindi fyrir 10.000 kr. iðgjald Lífeyrisréttur**
Viðmiðunariðgjald 0 kr. 1.203 kr. 0 kr.
Aldurstengd iðgjöld 50.000 kr. 889 kr. m.v. 59 ára aldur 4.445 kr.
50.000 kr. 4.445 kr.
Sjóðfélagi B Mánaðarleg greiðsla í lífeyrissjóð Réttindi fyrir 10.000 kr. iðgjald Lífeyrisréttur**
Viðmiðunariðgjald 25.000 kr.* 1.203 kr. 3.008 kr.
Aldurstengd iðgjöld 25.000 kr. 889 kr. m.v. 59 ára aldur 2.223 kr.
50.000 kr. 5.230 kr.

* Í þessu dæmi er miðað við að viðmiðunariðgjald sé 300.000 kr. á ári eða 25.000 kr. á mánuði. Viðmiðunariðgjald er persónubundið og því getur verið um aðra fjárhæð að ræða.
** Lífeyrir úr sameign við 67 ára aldur, á ári, ævilangt.

Spurt og svarað


Skylduiðgjald er lögbundið lágmark sem greiða skal í lífeyrissjóð. Fram til ársins 2016 var skylduiðgjald 12%, þ.e. 4% eigið framlag launafólks og 8% framlag launagreiðanda. Í byrjun árs 2016 voru samþykktir nýir kjarasamningar og samkvæmt þeim hækkar framlag launagreiðanda í lífeyrissjóði í þremur eftirfarandi skrefum:

 • Frá 1. júlí 2016: 8,5%
 • Frá 1. júlí 2017: 10,0%
 • Frá 1. júlí 2018: 11,5%

Með hækkun skylduiðgjalds úr 12% í 15,5% er stefnt að því að eftirlaun úr almennum lífeyrissjóðum hækki úr 56% af þeim launum sem greitt var af í lífeyrissjóð, í 72%. Forsenda þessa er að greitt hafi verið í lífeyrissjóð í 40 ár. Rof í iðgjaldasögu getur leitt til lægra lífeyrishlutfalls.

Á sjóðfélagaveg Birtu lífeyrissjóðs er að finna Lífeyrisgáttina sem veitir upplýsingar um lífeyrisréttindi í öðrum sjóðum, að undanskildum séreignarsparnaði.

Á sjóðfélagavefnum eru einnig upplýsingar um innborganir og ávöxtun á séreignarsparnaði Birtu lífeyrissjóðs, skil launagreiðanda á iðgjöldum og eftirstöðvar sjóðfélagalána.

Núverandi réttindakerfi er aldurstengt. Aldurstengd ávinnsla réttinda þýðir að yngri sjóðfélagar fá meiri réttindi en eldri fyrir sama iðgjald. Það byggist á því að verðmæti iðgjaldanna eykst eftir því sem þau ávaxtast lengur hjá lífeyrissjóðnum.

Nei. Eingöngu sjóðfélagar sem greiddu til Sameinaða lífeyrissjóðsins árið 2005 eiga rétt á viðmiðunariðgjaldi hjá Birtu lífeyrissjóði.

 • Réttur til viðmiðunariðgjalds kemur fram á sjóðfélagavef Birtu og á sjóðfélagayfirlitum sem send eru út tvisvar á ári. Viðmiðunariðgjaldið er bæði birt eins og það stóð í upphafi og einnig uppreiknað með vísitölu neysluverðs.
 • Farðu á sjóðfélagavef Birtu og skoðaðu réttindi þín á einum stað.

Nei. Viðmiðunariðgjald sem sjóðfélagi á hjá Birtu lífeyrissjóði eru ekki réttindi sem hægt er að færa til annarra lífeyrissjóða. Því er lögð áhersla á að sjóðfélagar kanni verðmæti þessa réttar skipti þeir um starf eða hyggjast af öðrum ástæðum greiða til annars lífeyrissjóðs. Verðmæti viðmiðunariðgjalds eykst með aldri og veitir t.d. 74% meiri réttindin fyrir 66 ára launafólk en aldurstengd ávinnsla réttinda.